ÝMSAR LEIÐBEININGAR UM PRJÓNASKAP
 
 
 
 
 
LITAGLEÐIGLEÐI
Í mörgum uppskriftum hjá Tíbrá eru farnar nýjar leiðir í hönnun þar sem íslenska ullinn er annars vegar. Oft er blandað saman tegundum til að fá réttu litasamsetningarnar t.d. getur verið Léttlopi, Plötulopi og Einband í sama munstri. Sumum gæti þótt það erfitt en þá er um að gera að prófa því þannig er hægt að stækka litaflóruna og breyta áferð og ganga aðeins út fyrir þægindarammann sinn. Að blanda saman tegundum og að hafa eina tegund tvöfalda eða jafnvel þrefalda til að búa til nýjan óþekktan lit er það skemmtilegasta sem aðal hönnuðurinn okkar gerir. Eitt verður þó alltaf að hafa vel í huga og það er prjónfestan.
 
 
 
PRJÓNFESTA:
Aldrei er lögð of mikil áhersla á prjónfestu. Í flíkum frá Tíbrá er oft verið að blanda á nýstárlegan hátt tegundum. Það kallar á sérstaka aðgætni varðandi prjónfestu. Rétt prjónfesta er lykillinn að fallegri flík í þeirri stærð sem óskað er eftir.
 
Prjónfesta er alltaf gefin upp í uppskriftum hér og getur hún verið mismunandi frá einni flík til annarrar þó um sama band sé að ræða. Stundum vill hönnuðurinn fá lausa og létta áferð eða þétta og þykka. Prjónastærðin sem gefin er upp í uppskriftinni er því eingöngu til viðmiðunar. Hver og einn prjónari þarf að þekkja sína prjónfestu. Ef flík er prjónuð á of grófa prjóna þannig að það verði færri lykkjur á hverja 10 cm en gefið er upp þá verður flíkin stærri en áætlað var í upphafi. Ef flík er prjónuð á of fína prjóna þannig að það verða fleiri lykkjur á hverja 10 cm en gefið er upp á verður flíkin minni en áætluð var í upphafi.
 
Best er að gera prjónfestuprufu áður en byrjað er á flíkinni, sérstaklega ef einhverju á að breyta. Margir gefa sér ekki tíma í það en vittu til það er þess virði. Ef það er ekki tími til þess þá er ráðlegt að byrja á ermi frekar en bol. Þar er hægt að mæla fljótlega prjónfestu. Það er þá minni vinna farin forgörðum en ef byrjað hefði verið á bolnum, ef prjónfestan reynist alveg út úr kú.
Munið vel: Notið fínni prjóna ef lykkjurnar eru of fáar á 10 cm miðað við það sem gefið er upp í uppskriftinni. Notið grófari prjóna ef lykkjurnar eru of margar á 10 cm miðað við það sem gefið er upp í uppskriftinni.
STÆRÐIR:
Hjá Tíbrá er flíkur oftast gefnar upp í fleiri en einni stærð. Gefin er upp yfirvídd, sídd og ermalengd fyrir hverja stærð. Þegar velja skal stærð sem á að passa er mjög mikilvægt að horfa líka á yfirvíddina. Þegar yfirvídd er mæld þá er málbandið sett undir hendur og viðkomandi mældur þar sem hann er breiðastur yfir brjóst og brjóstkassa.
 
 
TVÍBANDAPRJÓN:
Þegar prjónað er í hring er munsturteikningin alltaf lesin frá hægri til vinstri. Til að munstrið verði fallegt er atriði að sami liturinn sé alltaf ríkjandi (meira áberandi, hvort sem það er grunnlitur eða munsturlitur, val hvers og eins) eða víkjandi (minna áberandi) á réttunni, þannig að þverböndin á röngunni verða alltaf að liggja eins.
 
 
Þegar prjónað er í hring á sá litur sem á að vera ríkjandi á réttunni að vera nær olnboga. Þannig er öruggt að þverböndin á röngunni liggi næst prjónlesinu og togi minna í lykkjurnar en þverbönd sem liggja ofar; lykkjurnar verða stærri eða meira áberandi á réttunni en aðrar lykkjur.
 
FLÍKUR MEÐ RENNILÁS:
Ef það er rennilás á flíkinni skal mæla fyrir honum þegar búið er að prjóna og þvo flíkina svo að hann passi sem best. Þegar rennilásinn er saumaður í er best að tylla honum fyrst og gæta þess að hann passi vel.
Þess má geta að það eru nokkrir aðilar út í bæ sem taka að sér að sauma, klippa og setja rennilása í handprjónaðar peysur.