ÝMSAR UPPLÝSINGAR UM BAND
 
 
 
HANDÞVOTTUR:
Mælt er með þvotti á flíkum eftir prjón. Best er að þvo flíkina í höndum í ylvolgu vatni (30' C) og notið mildan ullarþvottlög. Hér er mælt með Ullarsápunni og Mýkingarefninu frá Ístex og selt er hér á síðunni. Látið flíkina liggja í sápuvatninu í u.þ.b. 10 mínútur, nema flíkur úr plötulopa. Skolið flíkina vel og hafið skolvatnið jafn heitt þvottavatninu. Nuddið flíkina hvorki né vindið heldur kreistið úr henni. Síðan er gott að setja mýkingarefni, hárnæringu eða svolítið  edik í síðasta skolvatnið. Að lokum má setja flíkina í þeytivindu í u.þ.b. hálfa mínútu.
 
Gefið ykkur tíma til að leggja flíkina til þerris á handklæði, strjúkið yfir hana alla og sléttið í viðeigandi mál. Gott er að setja pappahólka (t.d. hólka sem eru innan í gjafapappír eða matarfilmu) inní ermarnar. Einnig er gott að setja hólka í hliðarnar á bolnum. Þannig verða engin brot á flíkinni.
 
 
KAMBGARN ÞVOTTUR:
Mælt er með þvotti á flíkum úr Kambgarni eftir prjón. Einungis skal þvo flíkina í höndum í ylvolgu vatni (30'C) og nota mildan ullarþvottalög, t.d. Ullarsápuna frá Ístex. Flíkin má liggja í sápuvatninu í u.þ.b. 10 mínútur. Skolið hana síðan vel, hafið skolvatnið jafnheitt þvottavatninu. Ekki nudda flíkina né vinda heldur kreista úr henni vatnið. Gott getur verið að setja mýkingarefni, t.d. Ullarnæringuna frá Ístex í síðasta skolvatnið. Það má setja flíkina í þeytivindu í u.b.b. 1-2 mínútur. Leggið hana til þerris á handklæði, strjúkið og sléttið hana í viðeigandi mál.
 
 
 
PRESSUN:
Ekki er mælt með að pressa ullarflíkur en sé það nauðsynlegt skal það gert á röngunni. Notið meðalheitt straujárn og rakt pressustykki. Pressið létt yfir flíkina en sleppið stroffum.
 
 
ÞVOTTAVÉLAR:
Þess má geta að í nýjustu gerðum þvottavéla eru ,,ullarprógrömm''. 'I vélunum er vagga sem fer mjög vel með ullina en muna þarf að nota sérstakt þvottefni fyrir ull. Margir þvo flíkurnar í slíkum vélum með góðum árangri.